„Brjálæðingurinn“ ekki geðveikur

Luka Rocco Magnotta, mynd tekin af vefsvæði hans.
Luka Rocco Magnotta, mynd tekin af vefsvæði hans. Ljósmynd/luka-magnotta.net/

Réttarhöld yfir Luka Rocco Magnotta, sem ákærður er fyrir morðið og sundurlimun á kínverskum verkfræðinema, hófust í dag.

Saksóknari í málinu lagði áherslu á að Magnotta væri heill á geði og að kviðdómarar ættu ekki að trúa öðru. Ódæðið er ekki verknaður geðsjúklings.

Magnotta, sem er fyrrum klámmyndaleikari, er ákærður fyrir að hafa stungið Lin Jun til bana með ísnál í Montréal í Kanada í maí 2012. Eftir það misþyrmdi hann líkindu kynferðislega og sundurlimaði það. Jafnframt birti hann myndband af ódæðinu á netinu.

Nokkrum dögum eftir morðið fann lögregla í Montreal búk fórnarlambsins í ferðatösku við ruslagám. Magnotta sendi síðan afskornar hendur og fætur fórnarlambsins í pósti til stjórnmálaflokka í Ottawa og tveggja skóla í Vancouver. Höfuð fórnarlambsins fannst í almenningsgarði mörgum mánuðum síðar. 

Atburðurinn vakti mikla athygli í Kanada og var Magnotta kallaður "Brjálæðingurinn frá Montréal“.

Magnotta neitar sök, en fyrir nokkrum árum gekkst hann undir meðferð vegna geðklofa.

Við réttarhöldin í dag sat Magnotta letilega á bak við glergirðingu. Faðir Lin var viðstaddur réttarhöldin í dag.

Saksóknari í málinu, Louis Bouthillier, bað kviðdóminn um að falla ekki fyrir þeirri blekkingu að Magnotta væri veikur á geði. Magnotta hefur farið í gegnum geðmat og er hann talinn hæfur til þess að vera við réttarhöldin.

Talið er að þau taki sex til átta vikur en vitnin við réttarhöldin verða um sextíu talsins.

„Stakk fórn­ar­lambið með ís­nál“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert