Gíslataka á hóteli í Brasilíu

Maðurinn er m.a. vopnaður skotvopni.
Maðurinn er m.a. vopnaður skotvopni. AFP

Vopnaður maður hefur tekið starfsmann hótels í Brasilíu í gíslingu og neytt hann til þess að klæðast vesti sem hlaðið er sprengiefni. Segir frá þessu í fréttaveitu AFP. 

Maðurinn, sem m.a. er vopnaður skotvopni, hringdi á hótelstarfsmanninn snemma morguns og bað hann um að hitta sig á þrettándu hæð hótelsins. Þegar sá mætti var honum þröngvað inn í herbergi.

Því næst hringdi gíslatökumaðurinn í starfsmenn hótelsins og lét þá vita af stöðu mála. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni þar í landi hefur sést til mannsins nokkrum sinnum á svölum hótelherbergisins. Þar hefur hann staðið, sveiflað skotvopni sínu, og haft hótelstarfsmanninn sér við hlið. Sá mun vera handjárnaður og íklæddur sprengivesti.  

„Við vitum ekki enn hvort um alvöru sprengiefni er að ræða. Við höfum hins vegar gripið til viðeigandi varúðarráðstafana,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir talsmanni lögreglunnar í Brasilíu, en nærliggjandi svæði við hótelið hefur verið girt af. 

Ekki er vitað hvað manninum gengur til en hann hefur komið nokkrum kröfum á framfæri við lögreglu. Sumar þeirra eru sagðar tengjast pólitískum málefnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert