Sendiráðsstarfsmaður fannst myrtur

Hinn látni vann í sendiráði Spánar í Súdan.
Hinn látni vann í sendiráði Spánar í Súdan. AFP

Starfsmaður sendiráðs Spánar fannst látinn á heimili sínu í höfuðborginni Khartoum í Súdan, en honum hafði verið ráðinn bani með eggvopni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni þar í landi var hinn látni yfirmaður þeirrar deildar sendiráðsins sem fer með vegabréfsáritanir.

Nafn hins látna hefur ekki verið gert opinbert að svo stöddu en hann er hins vegar sagður hafa verið 61 árs gamall og hafði hann búið í Súdan í þrjú ár. Utanríkisráðuneyti Súdans hefur tilkynnt að morðrannsókn sé nú í fullum gangi hjá lögreglu.

„Lögregluyfirvöld í Khartoum og sérfræðingar hennar hafa hafið rannsókn á málinu svo hægt verði að hafa hendur í hári afbrotamannanna eins fljótt og auðið er,“ hefur fréttaveita AFP eftir tilkynningu sem ráðuneytið sendi frá sér vegna málsins.

Utanríkisráðuneyti Spánar hefur staðfest að maðurinn vann áður við vegabréfsáritanir á vegum sendiráðsins í Súdan. Hann mun hins vegar ekki hafa haft stöðu diplómata, að því er fréttaveita AFP greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert