Virða kröfur mótmælenda að vettugi

Stjórnvöld í Kína ætla ekki að fara að kröfum mótmælenda í Hong Kong um aukið lýðræði og ætla að bíða átekta þar til mótmælin fjara út. Tugir þúsunda tóku þátt í mótmælunum í gærkvöldi og hefur leiðtogi Hong Kong, CY Leung, beðið þá um að hætta mótmælum strax.

Hvert sem litið var í miðborg Hong Kong í gærkvöldi voru mótmælendur sem krefjast þess að stjórnvöld í Peking heimili íbúum Hong Kong að velja sér næsta leiðtoga en stjórnvöld í Kína hafa hingað til neitað því.

Upphaf mótmælanna má rekja til áforma kínverskra stjórnvalda um að stjórna því hverjir fái að bjóða sig fram í kosningum í Hong Kong árið 2017. Lýðræðissinnarnir krefjast þess að fá að velja sína eigin leiðtoga afskiptalaust en því hafa kínversk stjórnvöld hafnað algerlega.

Um helgina beitti lögregla táragasi á mótmælendur en óeirðalögreglan fór af vettvangi í gær og ró er yfir mótmælunum. Hluti borgarinnar er hins vegar lokaður af mótmælum, þar á meðal einhverjir skólar og bankar.

Leiðtogi Kommúnistaflokks Kína, Xi Jinping, minntist ekki á mótmælin þegar hann og aðrir háttsettir einstaklingar innan flokksins tóku þátt í hátíðarhöldum á torgi hins himneska friðar í dag.

Stjórnvöld í Kína segja mótmælin ólögleg og yfirvöld í Hong Kong segja ekkert hæft í orðrómi um að herinn í Kína verði sendur á vettvang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert