Þakkaði skattgreiðendum fyrir hálsfestina

Umrædd mynd Chai á Facebook.
Umrædd mynd Chai á Facebook.

Á meðan leiðtogi yfirvalda í Hong Kong situr undir stigvaxandi þrýstingi frá mótmælendum um að segja af sér dundar dóttir hans sér við að gera lítið úr almenningi á Facebook.

Chai Yan Leung er 22 ára dóttir CY Leung, æðsta yfirmanns stjórnvalda í Hong Kong. Í svari við athugasemd á mynd af henni á Facebook sagði Chay Yan að hálsfestin sem hún bæri á myndinni væri keypt fyrir pening skattborgara í Hong Kong.

„Hálsmenið á prófílmyndinni minni er ekki hundaól, kjáni!!! Þetta er fallegt hálsmen keypt í Lane Crawford (já - kostað af ykkur öllum skattgreiðendur Hong Kong!! Það sama gildir um alla fallegu skóna mína og kjólana og veskin!! Þakka ykkur kærlega fyrir!!!!),“ sagði Leung.

Í kjölfarið hrúguðust inn athugasemdir við myndina sem virtust fara í taugarnar á Leung. 

„Í raun ætti ég kannski ekki að segja „ykkur öllum“ þar sem flest ykkar hérna eru líklega atvinnulaus miðað við allan þennan tíma sem þið hafið í að vera heltekin af því að láta skilaboðin dynja á mér,“ sagði Chai Yan í annarri athugasemd. Seinna bætti hún við „Þetta er allt í lagi, mamma þín elskar þig ennþá.“

Myndin hefur nú verið tekin niður en mörgum þykja athugasemdir hennar hljóma eins og ummæli drottningar Frakklands, Marie Antoinette, þegar hún stakk upp á því að hungraðir þegnar hennar fengju kökur að borða. „Geta þeir þá ekki borðað kökur?“(„Qu'ils mangent de la brioche“). Þess má þó geta að ekki er einu sinni sannað að hún hafi nokkurn tíma látið þessi ummæli falla en það er önnur saga. Henni eru að minnsta kosti eignuð ummælin.

Fyrr á árinu vakti Chai Yan einnig umtal fjölmiðla þegar hún deildi tveimur myndum af blóðugum úlnliðum með fyrirsögnunum „Mun mér blæða til ólífis“ og „Ég elska blóð.“

Stúdentar funda með yfirvöldum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert