Biðja böðla um að sýna miskunn

Alan Henning
Alan Henning AFP

Foreldrar Peter Kassig, bandaríska hjálparstarfsmannsins sem liðsmenn Ríki íslam hafa hótað að taka af lífi, biðja um að honum verði sýnd miskunn. Þetta kemur fram í myndskeiði sem þau hafa sent frá sér en í gærkvöldi hótuðu böðlar Ríki íslam að Kassig yrði næsta fórnarlamb þeirra. 

 Ed og Paula Kassig segja í myndskeiðinu að þau séu afar stolt af mannúðarstarfi sonarins en Kassig hefur verið í haldi Ríki íslam frá því í fyrra.

Í myndskeiði sem samtökin sendu frá sér í gærkvöldi sést þegar Alan Hennig, breskur hjálparstarfsmaður, er tekinn af lífi. Í lok myndskeiðsins er því hótað að Kassig verði næstur.

Peter Kassig  (en hann nefnist nú Abdul-Rahman) er 26 ára gamall og er frá Indianapolis. Honum var rænt í Sýrlandi þann 1. október í fyrra. Foreldrar hans segja að þau viti að Sýrlendingar þjáist en lausnin sé ekki að beita ofbeldi. Móðir hans talar síðan beint til sonar síns og segir honum að félagi hans, sem einnig var rænt í Sýrlandi, sé nú laus úr haldi og sé heill á húfi.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmdu morðið á Henning en hann er fjórði vestræni gíslinn sem er tekinn af lífi af böðlum Ríki íslam á stuttum tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka