Bandaríkin hreinsuð af metrakerfinu?

Tilraunaverkefnið fór fram á um hundrað kílómetra löngum vegarkafla.
Tilraunaverkefnið fór fram á um hundrað kílómetra löngum vegarkafla. AFP

Leifar af misheppnaðri tilraun stjórnar James Earl Carter, eða bara Jimmy Carter, 39. forseta Bandaríkjanna, til að snúa Bandaríkjamönnum til metrakerfisins verða mögulega afmáðar á næstu árum. Ástæðan er meðal annars sú að ökumönnum gengur illa að ráða í vegalengdir merktar kílómetrum.

Þetta vandamál háir ekki mörgum Bandaríkjamönnum því tilraunaverkefnið fór fram á um hundrað kílómetra löngum vegarkafla í Arizonaríki, á milli Nogales og Tucson. Þar eru um fjögur hundruð skilti sem enn standa eftir verkefnið sem ráðist var í á árunum 1977-1981. Þeim þyrfti að skipta út fyrir ný með merkingum í mílum í stað kílómetrum. „Þegar ég ek um veginn ræð ég ekki við stærðfræðina,“ segir Nick Rodriguez, íbúi í Rio Rico, í samtali við AP-fréttastofuna.

Skoðanabræður Rodriguez reyndu fyrir fáeinum árum að fá skiltunum breytt þegar ríkið fékk um 1,5 milljón Bandaríkjadala í framkvæmdastyrk. Vegagerð Arizona var á sama máli en sökum þess að skiltin væru orðin gömul og veðruð. Þegar skiltaskiptin voru kynnt kom hins vegar fram mikil andstaða frá eigendum gististaða og veitingastaða á svæðinu sem sögðust þurfa að skipta út öllu kynningarefni sínu ef til skiptanna kæmi. Var þá hætt við.

Dustin Krugel, talsmaður Vegagerðarinnar í Arizona, segir að enn sé hins vegar þörf á því að skipta út skiltunum og ef til þess komi muni almenningur verða spurður hvort skiltin eigi að vera áfram merkt með kílómetrum eða mílum. En eins og staðan sé í dag þá hafi ríkið ekki efni á framkvæmdunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert