Sérfræðingar efast um kóngulóarfrétt

Kóngulóin skreið undir húð mannsin frá nafla og að brjóstkassa.Eða …
Kóngulóin skreið undir húð mannsin frá nafla og að brjóstkassa.Eða var þetta kannski ekki kónguló? Skjáskot

Það eru ekki allir sannfærðir um að saga Ástralíumannsins sem sagðist hafa látið fjarlægja kónguló úr maga sínum sé rétt. Margir fjölmiðlar, þeirra á meðal Reuters-fréttastofan, hafa sagt frá málinu. Það hefur mbl.is líka gert.

En getur lýsing hins 21 árs gamla Dylans Maxwells Thomas verið sönn? Thomas segist hafa verið í fríi á Balí. Þar hafi hann tekið eftir undarlegu rauðu fari á líkama sínum, allt frá nafla upp að brjóstkassa. Farið hafi átt upptök sín við gamalt ör eftir botnlangatöku. Hann segist hafa heimsótt lækni á heilsugæslu á Balí sem sagði honum að hann væri með skordýrabit. Læknirinn skrifaði upp á sýklalyf og lét þar við sitja.

En að sögn Thomas hélt ástandið áfram að versna þrátt fyrir sýklakremið. Sár fóru að koma á farið furðulega. Þá segist hann hafa farið til sérfræðings. Þar segir hann að læknir hafi fjarlægt kónguló undan húð hans og sett í tilraunaglas.

En gerðist þetta virkilega? Engin ástæða svo sem til að efast um það. En það er þó ekki víst að þetta hafi verið kónguló.

En af hverju ekki?

Í fyrsta lagi þá grafa kóngulær sig ekki undir húð fólks, ekki á ferðamönnum frekar en öðrum, segir Christopher Buddle, prófessor við McGill-háskólann, við vefsíðuna io9. Hann segir að öðru máli gegni um maura.

„Ég held að þetta sé nokkuð undarlegt, óvenjulegt og líklega ekki mögulegt,“ segir prófessorinn. „Einfaldlega: Þetta er ekki líklegt og ég get ekki fundið neinar líklegar ástæður fyrir því að kónguló myndi grafa sig inn um ör á líkama manns.“

Hann segir einnig ólíklegt að kóngulóin hafi svo fært sig um líkama mannsins, undir húðinni. Þannig hagi kóngulær sér ekki, svo vitað sé. Hins vegar eru önnur skordýr sem það gætu mögulega gert, svo sem maurar. „En alls ekki kóngulær.“

Fleiri sérfræðingar efast um að kónguló hafi verið í líkama mannsins. Marie Herberstein, sérfræðingur við háskóla í Nýju Suður-Wales í Ástralíu, segir ekki hægt að fullyrða fyrir víst að þetta hafi ekki verið kónguló en það gangi þó þvert á alla hennar þekkingu um slík dýr. „Mín tilfinning er sú að þetta hafi verið áttfætlumaur frekar en kónguló.“

Hún segist bíða spennt eftir niðurstöðum úr rannsóknum á kvikindinu. Það gerum við á mbl.is líka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert