Mega ekki kyssast á svæði skólans

Nemendurnir mega ekki lengur kyssast á svæði skólans. Verði þeir …
Nemendurnir mega ekki lengur kyssast á svæði skólans. Verði þeir gripnir við það, hljóta þeir refsingu. AFP

Nemendum við Háskólann í Simbabve verður refsað ef þeir eru gripnir við að kyssast eða stunda kynlíf á svæði skólans.

Þetta kemur fram í nýjum reglum sem dreift hefur verið um skólann, en skólinn þykir með þeim bestu í landinu.

Nemendur sem búa á heimavist skólans mega heldur ekki taka nemendur af öðru kyni með sér í herbergi sitt og þá má heldur ekki „ráfa um á dimmum stöðum fyrir utan íþróttavöllinn eða kennslustofurnar“, segir í reglunum.

Reglurnar voru kynntar fyrir tveimur vikum og hafa þær vakið mikla óánægju meðal nemendanna.

„Við erum á móti reglunum, sem okkur finnst vera fornfálegar, kúgandi og illar,“ segir Gilbert Mutubuki,forseti nemendafélags alþjóðlegra nemenda við skólann, í samtali við AFP-fréttaveituna.

Hann segist hvetja nemendur til að hafna reglunum, sem geri háskólann að grunnskóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert