Undirbjuggu synina fyrir heilagt stríð

AFP

Fjórar konur voru dæmdar í sex til tíu ára fangelsi í Sádí-Arabíu í gær fyrir að undirbúa syni fyrir heilagt stríð og að styðja Al-Qaeda hryðjuverkasamtökin.

Meðal annars eiga konurnar að hafa farið inn á vefi sem eru bannaðir og að hafa hlaðið niður efni á netinu sem tengist hernaði.

Helsti klerkur Sádí-Arabíu, Sheikh Abdul Aziz al-Sheikh, hefur hvatt unga múslíma í konungsríkinu að láta ekki glepjast af samtökum sem boða heilagt stríð í nafni trúarinnar.

Frá árinu 2011 hefur verið starfræktur sérstakur dómstóll í Sádí-Arabíu þar sem réttað er yfir fólki sem er talið tilheyra eða styðja Al-Qaeda eða hryðjuverkaárásum sem gerðar voru á konungsríkið á tímabilinu 2003-2006.

Sádí-Arabía er eitt þeirra ríkja sem tekur þátt í loftárásum sem skipulagðar eru af Bandaríkjaher á liðsmenn Ríki íslams.

Abdullah konungur setti í febrúar tilskipun um að þeir sem gangi til liðs við öfgahópa og berjist fyrir þá eigi yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsisrefsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert