Banvæn fegrunaraðgerð

Taílenska lögreglan hefur handtekið lýtalækni í Bangkok eftir að 24 ára bresk kona lést eftir  fegrunaraðgerð hjá lækninum fyrr í mánuðinum. Lýtalæknirinn er sakaður um saknæmt gáleysi í starfi.

Unga konan kom á stofuna til læknisins í fitusog hinn 14. október sl. Hún kom síðan aftur á stofuna til hans í gær vegna sýkinga eftir aðgerðina en lést á skurðarborðinu þar í gærmorgun samkvæmt fréttum AFP og Sky.

Að sögn lögreglu er læknirinn nú í haldi og á yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsisdóm verði hann fundinn sekur en samkvæmt Sky er læknirinn ekki með tilskilin leyfi til þess að gera aðgerðir sem þessar.

Mjög algengt er að útlendingar fari til Taílands í fegrunaraðgerðir þar sem þær eru oft mun ódýrari en víðast annars staðar auk þess sem læknar þar þykja, í flestum tilvikum, mjög færir á sínu sviði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert