Bóndi valinn ungfrú Úganda

Fyrrverandi sveppa- og kjúklingabóndi hefur verið krýndur ungfrú Úganda. Fegurðarsamkeppninni hefur verið breytt nokkuð frá því sem áður var. Í ár var ekki lögð áhersla á eggjandi göngulag á sýningarpalli heldur hvernig stúlkunum reiddi af í æfingabúðum á bóndabæ.

Leah Kalanguka, 23 ára, stóð uppi sem sigurvegari en 20 aðrar stúlkur komust í úrslit keppninnar. Keppnin er nú haldin til þess að kynna landbúnað í Austur-Afríku.

Stúlkurnar voru m.a. spurðar um búskap á sviðinu á lokakvöldinu en þær urðu einnig að mjólka kýr og sinna geitum og kindum.

„Ungdómurinn mun elska landbúnað því hann tengist fegurð. Í dag er bústörfum aðallega sinnt af eldri konum,“ sagði ungfrú Úganda að krýningu lokinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert