Seldi nýra til að borga skuldir

Átján ára kambódískur piltur mun aldrei losna við tæplega 18 sentímetra langt ör á líkama sínum og hann einungis með eitt nýra. Ástæðan er  sú að hann seldi úr sér annað nýrað til þess að bjarga fjölskyldu sinni úr skuldasúpu.

Chhay fékk þrjú þúsund Bandaríkjadali, 364 þúsund krónur, fyrir nýrað fyrir tveimur árum en hann fór með leynd til Taílands þar sem aðgerðin var gerð. Ólögleg sala á líffærum er þekkt í Nepal og Indlandi þar sem fátæktin er svo mikil að allt er gert til þess að reyna að halda lífi í fjölskyldum sínum. Mál Chhay er hins vegar fyrsta málið af þessum toga í Kambódíu. Tvennt situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins en þau eru grunuð um sölu á líffærum með ólöglegum hætti.

Chhay segir að það hafi verið nágrannakona sem hafi fengið hann og tvo bræður til þess að selja ríkum Kambódíumönnum nýrun úr sér. 

„Hún sagði okkur að við værum fátækir og ættum enga peninga. Ef við myndum selja nýrun úr okkur þá gætum við greitt skuldir okkar,“ segir pilturinn í viðtali við AFP fréttastofuna. Þegar þeir komust síðan að því að konan fékk 10 þúsund Bandaríkjadali fyrir hvert nýra lögðu þeir fram kæru til lögreglunnar fyrr á árinu. 

Allt að 10 þúsund, eða 10%, af þeim tilvikum þar sem um líffæraígræðslur eru að ræða eru líffærunum annað hvort stolin eða seld. 

Að sögn aðstoðarlögreglustjórans í Phnom Penh, Prum Sonthor, eru ólögleg viðskipti með nýru ólík öðrum glæpum sem koma á borð lögreglunnar. Ef fórnarlambið lætur ekki vita þá kemst aldrei upp um glæpinn. 

Lögreglan ákærði Yem Azisah, 29 ára, og stjúpföður hennar, Phalla, í júlí og er ákært fyrir mansal. Slík glæpastarfsemi er viðtekið vandamál í Kambódíu, einkum að fólk sé selt í kynlífsþrælkun, þvinguð hjónabönd og þrælahald en þetta er í fyrsta skipti sem ákært er fyrir mansal í tengslum við líffærasölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert