Flugvél brotlenti á byggingu

Flugvélin brotlenti á byggingu.
Flugvélin brotlenti á byggingu. Skjáskot af vef Sky

Tveir eru sagðir látnir og fjórir særðir eftir að lítil flugvél brotlenti á byggingu sem stendur við flugvallarsvæðið í Wichita í Kansasríki í Bandaríkjunum. Greint er frá þessu á fréttavef Sky.

Þar segir einnig að óttast sé um afdrif alls fimm einstaklinga.

Sky fréttastofan vitnar í Ronald Blackwell, slökkviliðsstjóra á flugvellinum, en hann segir slökkviliðsmenn nú berjast við mikið eldhaf. Sjónarvottar segja gríðarmikinn reyk vera yfir slysstaðnum. 

Vitni segja flugvélina, sem er af gerðinni Beechcraft, hafa skollið á efstu hæð byggingarinnar. Talið er að um 100 manns hafi verið inni í húsinu þegar flugvélin skall á því.

Fjölmennt lið björgunarmanna hefur verið sent á vettvang og er nú unnið að slökkvi- og björgunarstarfi. Á þessari stundu er ekki ljóst af hverju vélin skall á húsinu en talið er að mótor flugvélarinnar hafi misst afl með fyrrgreindum afleiðingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert