Hvíta ekkjan talin látin

Vega­bréf Samönt­hu Lewt­hwaite.
Vega­bréf Samönt­hu Lewt­hwaite. AFP

Bret­inn Sam­an­tha Lewt­hwaite, eða Hvíta ekkj­an eins og hún er kölluð, sem grunuð er um að hafa tekið þátt í að skipuleggja hryðjuverkin í Kenía, er nú talin látin. 

Lewt­hwaite er talin hafa látist hægum og kvalarfullum dauðdaga þegar hún var skotin af uppreisnarmönnum stutt frá bænum Debaltsevo í Úkraínu fyrir tveimur vikum síðan. Þessu greindi rússneska fréttastofan Regnum frá í gær. 

Yfirvöld í Bretlandi vinna nú að því að staðfesta dauða Lewt­hwaite.

Margir hafa þó bent á það að engar staðfestar heimildir liggi fyrir um það að Lewt­hwaite hafi yfirgefið Afríku, og því sé ólíklegt að hún hafi verið í Úkraínu á þessum tíma. Þá hefur verið sett spurningarmerki við það að uppreisnarmenn hafi haldið upplýsingunum um dauða hennar leyndum í tvær vikur. 

Lewt­hwaite er fædd 5. des­em­ber 1983 og er frá enska smá­bæn­um Ban­bridge í County Down. Sagt er að hún hafi snú­ist til íslamstrúar á tán­ings­aldri þegar for­eldr­ar hann gengu í gegn­um skilnað.

Lewt­hwaite giftist Germaine Lindsay árið 2005, en Lindsay lést eftir að hafa sprengt sig upp í árásum á almenna borgara í lestarferð á milli King's Cross St. Pancras and Rus­sell Square í Lund­ún­um 7. júlí sama ár. Í sjálfs­vígs­sprengju­árás­inni lét­ust 26 sak­laus­ir borg­ar­ar. Fleiri árás­ir voru gerðar í lest­ar­vögn­um þann sama dag og dóu því á fjórða tug manna.

Sam­an­tha neitaði aðild eig­in­manns síns að spreng­ing­unni þar til lög­regla hafði óyggj­andi sann­an­ir. Þá sagðist hún hafa viðbjóð á ódæðis­verk­inu og að öfga­menn hefðu eitrað huga eig­in­manns síns.

Eftir þetta hefur Lewt­hwaite verið bendluð við fjölda hryðjuverkaárása, og samkvæmt kenísku leyniþjónustunni var hún lykilmanneskja í und­ir­bún­ingi Shabab-hryðju­verka­sam­tak­anna í árás­inni á versl­un­ar­miðstöðina í Naíróbí. Sam­tök­in höfðu skipu­lagt fleiri árás­ir víða um Ken­ía.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert