Rússneskir hermenn „streyma inn í Úkraínu“

Vaxandi áhyggjur eru af því að til allsherjarátaka kunni að koma í Úkraínu í kjölfar þess að Atlantshafsbandalagið (NATO) staðfesti í gær að Rússar hefðu að undanförnu sent mikinn fjölda hermanna og hergagna yfir landamærin til landsins.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph að fjöldi rússneskra hermann, skriðdreka og fallbyssa „streymi inn í Úkraínu“ til þeirra landsvæða sem aðskilnaðarsinnar hliðhollir rússneskum stjórnvöldum stjórni. Phillip Breedlove, yfirhershöfðingi NATO í Evrópu, staðfesti þetta í gær í kjölfar þess að úkraínsk stjórnvöld kröfðust þess að boðað yrði til neyðarfundar í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna málsins. Þá hafa ráðamenn í Kænugarði fyrirskipað úkraínska hernum að undirbúa sig fyrir átök.

„Undanfarna tvo daga höfum við orðið vitni að því sama og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hefur greint frá. Við höfum orðið vitni að því að mikið magn af rússneskum hergögnum, aðallega skriðdrekum, fallbyssum, loftvarnakerfum og hermönnum, hafi verið sent til Úkraínu,“ er haft eftir Breedlove. Hann sagði ekki ljós um nákvæmkega hversu marga hermenn væri að ræða en þeir væru margfalt fleiri en það sem áður hefði sést.

Rússnesk stjórnvöld hafa alfarið hafnað þessum fullyrðingum og sagt engin sönnunargögn fyrir því að rússneskir hermenn hafi nokkurn tímann farið yfir landamærin að Úkraínu.

Philip Breedlove, yfirhershöfðingi NATO í Evrópu.
Philip Breedlove, yfirhershöfðingi NATO í Evrópu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert