Fá auknar heimildir til sjálfsvarnar

AFP

Ráðherra almannaöryggis í Ísrael, Yitzhak Aharonovitch, segir að dregið verði úr hömlum varðandi heimildir fólks til þess að bera vopn í sjálfsvarnarskyni en fyrr í dag létust fjórir gyðingar í bænahúsi er tveir Palestínumenn réðust þar inn.

Aharonovitch segir að þetta þýði að þeir sem hafa heimild til þess að bera vopn, svo sem lífverðir og öryggisverðir sem og hermenn sem ekki eru á vakt, geti gengið um vopnaðir og varið sig komi til þess

Abu Ali Mustafa fylkingin, sem er hernaðararmur Popular Front for the Liberation of Palestine, hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni í morgun en tveir menn vopnaðir byssum og kjötöxum ruddust inn í bænahús gyðinga í Jerúsalem snemma í morgun og myrtu fjóra Ísraela áður en þeir voru skotnir til bana. Árásin er sú mannskæðasta í Jerúsalem árum saman.

Óttast margir Ísraelar að þetta geti magnað enn frekar upp deilurnar milli Ísraela og Palestínumanna í borginni. Undanfarna mánuði hefur ítrekað komið til átaka milli Ísraela og Palestínumanna en ekkert jafn alvarlegt og árásin í morgun. Meðal látinna er rabbíni en átta eru særðir eftir árásina, þar af einn lífshættulega og þrír alvarlega.

Árásarmennirnir voru báðir um tvítugt en þeir voru frændur búsettir í austurhluta Jerúsalem. 

Ísraelar hóta því að hefna grimmilega fyrir árásina en forsætisráðherra landsins, Benjamin Netanyahu segir að árásin sé beint framhald af hvatningu forseta Palestínu, Mahmud Abbas. 

Abbas fordæmir hins vegar árásina en Hamas fagnar henni og segir hana eðlilegt framhald af aðgerðum Ísraela í Austur-Jerúsalem undanfarið.

AFP
AFP
Ættingi þeirra Uday og Ghassan Abu Jamal með myndir af …
Ættingi þeirra Uday og Ghassan Abu Jamal með myndir af þeim en þeir réðust inn í bænahús gyðinga í morgun. AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert