Eitthvað rautt og nýtt

Fjölmargir vínaðdáendur létu ekki kulda stöðva sig er þeir þustu á næsta öldurhús til þess að taka fyrsta sopann af uppskeru ársins; Beaujolais Nouveau er komið á markað. 

Þrátt fyrir að Beaujolais Nouveau-rauðvín þyki ekki besta rauðvín í heimi, enda afar óþroskað vín, þá fylgir því mikil stemning að smakka það ár hvert - hvernig til hafi tekist við vínuppskeruna í ár.

Vínsmökkunin er ekki bundin við heimalandið, Frakkland, því út um allan heim gladdist fólk yfir fyrsta glasinu af þesu vikugamla víni og naut þess að þefa af franskri jörð.

„Smásýra,“ sagði Daniel þegar hann tók fyrsta sopann í bænum Jura í gærkvöldi. Hann kemur þangað ár hvert með vinum sínum til þess að taka þátt í hinni árlegu athöfn, að smakka Beaujolais Nouveau. „Við vitum að þetta er kannski ekki það besta sem býðst en við komum fyrir stemninguna,“ segir hann.

Átta klukkustundum fyrr, á veitingastað í miðborg Tókýó, kom hópur fólks saman og smakkaði Beaujolais Nouveau. Á sama tíma var stór hópur fólks samankominn í heilsulind í Hakone í Japan og naut þess að dreypa á drykknum rauða. 

Kaupmaðurinn George Duboeuf á heiðurinn af Beaujolais Nouveau-samkomum og nær hefðin til ársins 1967. 

En Beaujolais Nouveau er ekki bara Beaujolais Nouveau því það eru um tvö þúsund framleiðendur vínsins í Beaujolais. Flestir þeirra smáir og engir tveir eins. Í dag er vínið þekkt fyrir ávaxtakeim og léttleika. Eins eru sumar tegundir þess tannínríkar og jafnvel ruddalegar. En þrátt fyrir það er stemningin yfirleitt mikil og góð enda markar Beaujolais Nouveau-kvöldið oft upphaf jólaundirbúningsins hjá vínáhugamönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert