Pútín opnar sig í viðtali

Pútín skálar með erlendum sendiherrum við athöfn í Kremlin í …
Pútín skálar með erlendum sendiherrum við athöfn í Kremlin í síðustu viku. AFP

Forseti Rússlands, Vladimir Pútin, hefur yfirleitt haldið einkalífinu frá fjölmiðlum og er lítið sem ekkert vitað um dætur forsetans sem eru tæplega þrítugar. Í viðtali við rússnesku fréttastofuna TASS opnaði forsetinn sig þó aðeins og sagði að dæturnar byggju í Moskvu.

Í viðtalinu segist Pútín reyna að hitta dæturnar, þær Mariu sem er 29 ára og Yekaterinu sem er 28 ára, að minnsta kosti einu sinni í mánuði.

„Vinnuáætlun mín er þétt bókuð. Ég sé dætur mínar ekki nema einu sinni til tvisvar í mánuði og ég þarf alltaf að vera búinn að skipuleggja það fyrirfram,“ sagði Pútín.

Aðspurður hvar dæturnar byggju svaraði hann: „Í Rússlandi, hvar annars staðar? Auðvitað búa þær í Moskvu. Við hittumst á heimilum þeirra.“

Maria neyddist til að flýja heimili sitt í Hollandi eftir að farþegaþota Malaysia Airlines var skotin niður af flugskeyti sem Rússar eiga að hafa látið uppreisnarsinna í Úkraínu fá. Rússar hafa þó alltaf þvertekið fyrir að tengjast hrapi þotunnar. 298 manns létust þegar þotan hrapaði í Austur-Úkraínu, aðallega hollenskir ríkisborgarar.

Borgarstjóri hollensku borgarinnar Hilversum, sem missti marga íbúa sína þegar þotan hrapaði, kallaði eftir því að Maria yrði rekin úr landi. Hann dró þau ummæli þó fljótlega til baka. 

Úkraínskir aðgerðarsinnar birtu jafnframt myndir af henni og heimilisfang meintrar lúxusíbúðar sem forsetadóttirin bjó í. Var fólk hvatt til að fara að íbúðinni og mótmæla. 

Samkvæmt rússneskum fjölmiðlum var Yekaterina trúlofuð syni suðurkóresks hershöfðingja árið 2010 en talsmaður Pútíns neitaði þeim orðrómi. 

Pútín hefur aldrei verið myndaður opinberlega með dætrum sínum og fæstir Rússar vita hvernig þær líta út. Forveri Pútíns, Boris Jeltsín, var hins vegar duglegur að sýna sína dóttur, Tatyönu Ymashevu, sem var jafnframt einn af hans helstu ráðgjöfum. 

Ástalíf Pútíns er einnig umtalað og margar sögur heyrst. Hann var bendlaður við fimleikakonuna Alinu Kabayevu mörgum árum áður en hann skildi við eiginkonu sína til þrjátíu ára, Lyudmilu. Hún er fyrrverandi flugfreyja hjá Aeroflot. 

Árið 2008 hélt dagblaðið Moskovsky Korrespondent því fram að Pútín væri við það að giftast Kabayevu, sem er 31 ári yngri en forsetinn. Eigandi dagblaðsins stöðvaði starfsemi blaðsins stuttu síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert