Vilja hefja trúarbragðastríð

Ættingjar fólksins sem lést syrgja sína nánustu fyrir utan líkhús …
Ættingjar fólksins sem lést syrgja sína nánustu fyrir utan líkhús í Naíróbí í gær. AFP

Byssumenn sem myrtu 28 manns um borð í rútu í Kenía í gær vilja hefja trúarbragðastríð. Þetta segir Abdikadir Mohammed sem er náinn ráðgjafi forseta landsins, Uhuru Keyatta. 

Mohammed  segir í samtali við breska ríkisútvarpið að hann hafi hvatt alla íbúa Kenía, óháð trú, til að standa saman gegn svívirðilegum glæpum. 

Liðsmenn al-Shabab réðust á rútuna í dögun í gærmorgun í norðurhluta Kenía. Þar skutu þeir farþega til bana sem voru ekki múslímar. 

Samtökin, sem hafa aðsetur í Sómalíu, hafa staðið á bak við fjölmargar árásir í Kenía undanfarin þrjú ár. 

Rútan var að aka til Naíróbí, höfuðborgar landsins, þegar hún var stöðvuð í Mandera-sýslu, sem er skammt frá landamærunum að Sómalíu. 

Byssumennirnir aðskildu múslimana frá öðrum með því að biðja farþegana að lesa upp úr kóraninum. Þeir sem gátu það ekki voru skotnir í höfuðið. 

Rauði krossinn í Kenía segir að 28 farþegar af 60 hafi látist. 19 karlar og níu konur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert