Banna reykingar í Peking

AFP

Nú hefur verið samþykkt bann gegn reykingum á opinberum stöðum og skrifstofum innandyra í Peking, höfuðborg Kína og tekur það gildi í júní. Jafnframt verða tóbaksauglýsingar bannaðar utandyra, í lestum og rútum og í dagblöðum, útvarpi, sjónvarpi, kvikmyndum og bókum. 

Meira en milljón manns deyja árlega í Kína vegna reykinga. Sérfræðingar telja að fjöldi dauðsfallanna geti þrefaldast á næstu fimmtán árum. 

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin fagnaði banninu og sagði að þetta gæti rutt brautina til þess að minnka reykingar enn frekar í landinu. 

„Við erum spennt að sjá bannið ganga í gildi, með engum smugum eða undantekningum,“ sagði Bernhard Schwartlander, talsmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Kína.

Árið 2011 gaf heilbrigðisráðuneyti landsins út bann gegn reykingum á opinberum stöðum innandyra en bannið var gagnrýnt fyrir að vera of óljóst. Þar af leiðandi hafa barir, veitingastaðir og næturklúbbar í borginni leyft fólki áfram að reykja innandyra. 

Að bjóða upp á sígarettur er almenn leið til þess að heilsa meðal kínverska karlmanna. Þeir kveikja sér í sígarettum í lyftum, rútum og jafnvel á sjúkrahúsum að vild. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert