Mikill viðbúnaður í Austurríki

Lögreglan í Vín
Lögreglan í Vín AFP

Austurríska lögreglan handtók þrettán í morgun í tengslum við viðamiklar aðgerðir í tengslum við starfsemi hryðjuverkasamtaka. Meðal annars var leitað í moskum, bænaherbergjum og á heimilum múslima. 

AFP fréttastofan hefur eftir saksóknara að aðgerðirnar hafi tengst liðssafnaði hryðjuverkasamtaka í Austurríki. Alls tóku um 900 lögreglumenn þátt í aðgerðunum í Vín, Grax og Linz en rannsókn málsins hefur staðið yfir í tvö ár. 

Grunur leikur á um að nokkrir menn hafi haft þann starfa í Austurríki að fá ungt fólk til liðs við Ríki íslams og taka þátt í stríðinu í Sýrlandi fyrir hönd samtakanna.

Fjölmiðlar í Austurríki greina frá því að lögreglan hafi meðal annars handtekið bosnískan prest sem er talinn höfuðpaurinn í málinu. Eins var lagt hald á alls konar áróður frá hryðjuverkasamtökum og peninga á nokkrum heimilum. 

Boðað hefur verið til blaðamannafundar síðar í dag þar sem farið verið yfir rannsókn málsins en einnig hefur komið fram í fjölmiðlum í dag að þeir sem handteknir voru hafi komið að fjársöfnun fyrir hryðjuverkasamtök. Alls hafa um 150 Austurríkismenn farið úr landi eða verið stöðvaðir áður en þeir hafa farið til þess að taka þátt í heilögu stríði í Sýrlandi og Írak. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert