Svaf undir ræðu forsætisráðherra

Narendra Modi tókst að svæfa einn af yfirmönnum lögreglunnar þegar …
Narendra Modi tókst að svæfa einn af yfirmönnum lögreglunnar þegar hann ræddi málefni lögreglunnar. AFP

Yfirmaður lögreglunnar á Indlandi varð sér til skammar í dag þegar myndir birtust af honum í ríkissjónvarpinu þar sem hann svaf undir ræðu forsætisráðherra landsins, Narendra Modi.

Ræðan var flutt á fundi helstu yfirmanna lögreglunnar sem haldinn var í Assam um helgina. Þar var meðal annars rætt um þjóðaröryggi. Talaði Modi um hversu mikilvægt það væri að lögreglan væri vel á verði og vakandi fyrir þeim hættum sem steðjuðu að. Sem myndskreytingu af fundinum notaði sjónvarpið meðal annars myndir af gestum í salnum, þar á meðal lögreglustjóranum sofandi.

En lögregluforinginn svaf ekki bara yfir ræðu Modis því í gær sást hann á myndum NDTV sjónvarpsstöðvarinnar með lokuð augu þegar innanríkisráðherrann talaði um þjóðaröryggismál.

Ranjit Sinha, sem stýrir rannsóknarlögreglu landsins, á einungis nokkra daga eftir í starfi en hann er að fara á eftirlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert