Deildar meiningar innan kirkjunnar

Nú hyllir undir það að hjónabönd samkynhneigðra verði leidd í …
Nú hyllir undir það að hjónabönd samkynhneigðra verði leidd í lög í Finnlandi, en innan lútersku kirkjunnar þar í landi leggja menn ólíkan skilning í hjónbandið. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. AFP

Fleiri en 13.000 hafa skráð sig úr lútersku kirkjunni í Finnlandi síðustu þrjá daga, eftir að erkibiskup kirkjunnar sagðist gleðjast yfir því að hjónabönd samkynhneigðra yrðu mögulega leidd í lög.

Erkibiskupinn, Kari Makinen, sagðist á föstudaginn gleðjast frá dýpstu hjartarótum yfir úrslitum atkvæðagreiðslu á finnska þinginu, þar sem meirihluti þingmanna greiddi atkvæði með tillögu frá almennum borgurum, þess efnis að þingið tæki hjónabönd samkynhneigðra til umfjöllunar.

Jukka Keskitalo, háttsettur embættismaður innan kirkjunnar, sagði hins vegar á sunnudag að atkvæðgreiðslan breytti ekki afstöðu kirkjunnar til hjónabandsins; það gilti aðeins um samband milli karls og konu.

Andstæðar skoðanir kirkjunnar manna hafa hleypt illu blóði í bæði íhaldssama og frjálslynda arma lútersku kirkjunnar. Frá föstudegi og fram á sunnudag sögðu 13.000 manns sig úr kirkjunni í mótmælaskyni, samkvæmt vefsíðunni eroakirkosta.fi.

„Skilaboð erkibiskupsins voru ætluð frjálslyndum meðlimum kirkjunnar, en snerust mót kirkjunni sjálfri,“ sagði Petri Karisma, forseti League of Free Thinkers, sem rekur vefsíðuna. Síðan var sett upp til að aðstoða fólk við að segja sig úr finnskum söfnuðum.

Um 5.200 sögðu sig úr kirkjunni á sunnudag. Um 75% Finna tilheyra lútersku kirkjunni en 90% tilheyrðu kirkjunni á sjöunda áratug síðustu aldar.

Þúsundir skrifuðu undir áskorun til að knýja fram umfjöllun um málið á þinginu. Atkvæðagreiðslan á föstudag var ekki bindandi niðurstaða um úrslit málsins, en knýr á um að málið verði tekið til umfjöllunar.

Samkvæmt finnskum lögum þarf 50.000 undirskriftir til að knýja fram atkvæðagreiðslu á þinginu en 166.851 léði umræddu máli undirskrift sína.

Samkynhneigðir hafa getað gengið í staðfesta samvist í Finnlandi frá 2002. Hljóti hjónabönd samkynhneigðra náð fyrir augum þingsins er þó ekki gert ráð fyrir að lög þar að lútandi taki gildi fyrr en 2016.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert