Þýska þjóðin harmi slegin

Þýska lögreglan birti í dag myndbandsupptöku sem sýnir þegar maður réðst á unga konu í bænum Offenbach í Þýskalandi fyrir hálfum mánuði. Konan hafði haft afskipti af manninum þegar hann var að áreita tvær stúlkur. Maðurinn brást við með því að slá konuna hnefahöggi með þeim afleiðingum að hún lést.

Málið hefur vakið mikinn óhug í Þýskalandi. Víða hafa verið haldnar minningarathafnir um konuna, sem hét Tugce Albayrak. 

Þýska dagblaðið Bild birti myndskeiðið sem sýnir árásina sem átti sér stað hinn 15. nóvember sl. skammt frá skyndibitastað í bænum. Í því sést annar karlmaður reyna að hafa hemil á árásarmanninum. Hann sést síðan slá Albayrak hnefahöggi með þeim afleiðingum að hún missti meðvitund. Lík hennar var krufið í dag til að fá það staðfest hvort hefnahöggið hefði dregið hana til dauða eða höggið sem hún hlaut er hún skall í götuna.

Hún lá á sjúkrahúsi í hálfan mánuð í öndunarvél og komst aldrei til meðvitundar. Slökkt var á búnaðinum á föstudag, daginn sem hún varð 23 ára gömul.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að stúlkurnar sem maðurinn hafði verið að áreita hafi enn ekki stigið fram. Faðir Albayrak hefur hvatt þær til að aðstoða við rannsókn málsins. 

Greint hefur verið frá því í þýskum fjölmiðlum að Albayrak hafi brugðist við eftir að hafa heyrt stúlkurnar gráta á salerni skyndibitastaðarins. 

Þúsundir Þjóðverja vottuðu Albayrak virðingu sína um helgina. Joachim Gauck, forseti Þýskalands, sagði m.a. að hún hefði sýnt af sér mikið hugrekki og væri öðrum fyrirmynd. 

Lögreglan í Offenbach vonast til að birting myndbandsins leiði til þess að fleiri sjónarvottar hafi samband vegna málsins. 

Árásarmaðurinn, sem er 18 ára gamall, er í haldi lögreglu. Hann hefur viðurkennt að hafa slegið Albayrak, að því er þýska útvarpsstöðin Deutsche Welle segir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert