Fjórar sprengjur faldar í Sydney

Mannræninginn hefur krafist þess að fá fána Ríkis íslams afhentan á kaffihúsið þar sem hann heldur fólki í gíslingu. Hann segir að fjórum sprengjum hafi verið komið fyrir í Sydney. Fimm hafa flúið kaffihúsið en fólki hefur verið haldið þar í rúm sjö tíma.

Hundruð sérsveitarmanna taka þátt í aðgerðunum en búið að loka af stórt svæði í fjármálahverfi áströlsku borgarinnar. Mannræninginn hefur komið fyrir svörtum fána með arabísku letri í glugga Lindt-kaffihússins. 

Stöð tíu hefur rætt við tvo gísla sem enn eru í haldi og segja þau mannræningjann hafa lagt fram nokkrar kröfur. Þar á meðal að fá afhentan fána Ríkis íslams og að ræða við forsætisráðherra Ástralíu, Tony Abbott. Eins hafi hann komið fjórum sprengjum fyrir, tveimur inni á Lindt-kaffihúsinu við Martin-torg og tveimur annars staðar í borginni.

AFP-fréttastofan segir að þetta hafi ekki fengist staðfest af lögreglu.

Í frétt ABC-sjónvarpsstöðvarinnar kemur fram að þar sem allt nánasta umhverfi kaffihússins sé lokað séu fyrirtæki og stofnanir á svæðinu lokuð. Má þar nefna Seðlabanka Ástralíu og höfuðstöðvar fjölmargra banka. Eins er þinghúsið lokað.  

Samkvæmt Guardian voru konurnar greinilega skelfingu lostnar þegar þær hlupu út úr kaffihúsinu, íklæddar fatnaði starfsfólks Lindt, og svo mikil var skelfingin að illa gekk að stöðva aðra þeirra eftir að hún komst í öruggt skjól lögreglu. Það eina sem hún vildi gera var að fara lengra í burtu.

Aðstoðaryfirlögregluþjónn New South Wales, Catherine Burn, ræddi fyrir nokkrum mínútum við blaðamenn og vildi hún ekki gefa þar upp hvort gíslarnir fimm hefðu flúið eða verið sleppt úr haldi. Allt bendir til þess að gíslatökumaðurinn, sem er þungvopnaður, sé einn að störfum.

Burns segir að ekki sé hægt að veita neinar upplýsingar um málið að svo stöddu en samningamenn lögreglu séu í viðræðum við gíslatökumanninn. Eins fylgist lögregla grannt með allri umræðu á samfélagsmiðlum í þeirri von að finna frekari upplýsingar um gíslatökuna.

Hún segir að um leið og hægt verði að veita frekari upplýsingar verði það gert. Það séu hins vegar afar góðar fréttir að fimm séu lausir úr gíslingu.

Samkvæmt frétt BBC kom maður með tösku og byssu inn á kaffihúsið klukkan 9:45 að staðartíma eða fyrir tæpum níu tímum. Í yfirlýsingu frá Lindt kemur fram að tíu starfsmenn og 30 gestir hafi væntanlega verið inni á kaffihúsinu en nýjustu upplýsingar benda til þess að þeir hafi verið færri.

Múslímaleiðtogar í Ástralíu hafa allir sem einn fordæmt árásina og hvetja fólk til þess að koma í moskur landsins og biðja fyrir þeim sem haldið er í gíslingu.

Einn gíslanna sést hér flýja kaffihúsið
Einn gíslanna sést hér flýja kaffihúsið AFP
Leyniskyttur eru á svæðinu.
Leyniskyttur eru á svæðinu. AFP
Mannræninginn inni á kaffihúsinu.
Mannræninginn inni á kaffihúsinu. AFP
Maðurinn hefur tekið marga í gíslingu.
Maðurinn hefur tekið marga í gíslingu. AFP
Gíslatökumaðurinn lætur gíslana halda fána í glugga kaffihússins.
Gíslatökumaðurinn lætur gíslana halda fána í glugga kaffihússins. AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert