Fóru á milli stofa og myrtu börn

Nú er talið að 130 manns liggi í valnum, flestir þeirra börn, eftir árás talibana á skóla í norðvesturhluta Pakistans í morgun. Vitni lýsa því hvernig mikil sprenging skók skólabygginguna og í kjölfarið hafi vopnaðir menn gegnið á milli skólastofa og myrt börnin sem þar voru.

Árásin átti sér stað í borginni Peshawar kl. 10:30 að staðartíma. Þá herma heimildir að í það minnsta fimm vopnaðir menn klæddir í herbúninga hafi ráðist inn í skólann. Samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar voru þá hundruð nemenda í skólanum. Skólinn er einn af 146 skólum sem reknir eru um landið fyrir börn starfsmanna hersins. Börnin þar eru á aldrinum 10-18 ára gömul.

„Ég sá sex eða sjö menn sem gengu frá einni stofu til annarrar og skutu á börn,“ hefur AFP eftir starfsmanni skólans.

Um fimm og hálfri klukkustund eftir að árásin hófst fullyrti talsmaður hersins að árásarmennirnir hefðu verið vegnir af hersveitum. 

Vígamenn talibana hafa lýst ábyrgð á ódæðinu á hendur sér. Þeir segja að um hefndaraðgerð hafi verið að ræða vegna hernaðaraðgerða í héraðinu. Byssumönnum hafi verið skipað að skjóta á eldri nemendur í skólanum.

Nawas Sharif, forsætisráðherra Pakistans, segir árásina „þjóðarharmleik af völdum villimanna“.

„Þetta voru börnin mín. Þetta er minn missir. Þetta missir þjóðarinnar,“ segir Sharif.

Faðir syrgir son sinn sem talibanar myrtu í skóla í …
Faðir syrgir son sinn sem talibanar myrtu í skóla í Peshawar í morgun. Árásin er ein sú mannskæðasta í sögu landsins. AFP
Særð stúlka borin út úr skólanum í morgun. Talið er …
Særð stúlka borin út úr skólanum í morgun. Talið er að um 130 manns liggi í valnum eftir árás talibana. AFP
Kona brestur í grát á leið sinni að skólanum þar …
Kona brestur í grát á leið sinni að skólanum þar sem fjöldi barna var myrtur af talibönum í morgun. AFP
Hlúð að einum nemendanna sem særðist í árás talibana í …
Hlúð að einum nemendanna sem særðist í árás talibana í Peshawar í morgun. AFP
Hermaður stendur vörð nærri skólanum þar sem árásin var gerð …
Hermaður stendur vörð nærri skólanum þar sem árásin var gerð í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert