Grunaður morðingi fannst látinn

Maður sem er grunaður um að hafa orðið fyrrverandi eiginkonu sinni að bana auk fimm annarra úr hennar fjölskyldu fannst látinn í skóglendi skammt frá heimili sínu í Pennsburg í Pennsylvaníu. Maðurinn er fyrrverandi hermaður sem barðist m.a. í Íraksstríðinu.

Lögreglan segir að lík Bradley Stone hafi fundist í dag, en hann var 35 ára gamall. Í gær skaut hann og myrti Nicole Hill, sem er fyrrverandi eigikona hans, móður hennar, systur, mág og 14 ára gamla frænku Hill. 

Sautján ára gamall frændi Hill særðist í skotárásinni og liggur hann nú lífshættulega slasaður á sjúkrahúsi.

Lögreglan hefur boðað til blaðamannafundar sem hefst kl. 21 að íslenskum tíma (kl. 16 að staðartíma). 

Lýst var eftir Stone í gær og var hann sagður vopnaður og hættulegur. Umfangsmikil leit hófst og voru íbúar hvattir til að halda sig innandyra. Skólum var einnig lokað. 

Fram kemur bandarískum fjölmiðlum að Stone hafi þjáðst af áfallastreituröskun. Hann er sagður hafa skotið Hill fyrir framan dætur þeirra, sem eru fimm og átta ára gamlar. 

Að sögn lögreglu, höfðu Hill og Stone staðið í forræðisdeilu í fimm ár, eða frá því þau skildu árið 2009. Nágrannar sögðu í samtali við fjölmiðla að þeir höfðu margsinnis heyrt í þeim rífast. 

Núverandi eiginkona Stone og ungt barn þeirra eru óhult að sögn lögreglu. Einnig dæturnar sem hann átti með Hill. 

Sex skotnir til bana

Lögreglan birti þessa samsettu ljósmynd af Stone sem sýnir hann …
Lögreglan birti þessa samsettu ljósmynd af Stone sem sýnir hann með og án skeggs.Lögreglan hefur nú staðfest að hann hafi fundist látinn skammt frá heimili sínu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert