Minnast þeirra sem létust

Það ríkir sorg víða í Ástralíu en þar í landi minnist fólk fólksins sem lést í umsátrinu um kaffihús Lindt í fjármálahverfi Sydney í gær. Umsátrið stóð yfir í tæpa sautján tíma og lauk með því að tveir gíslar létust og eins gíslatökumaðurinn. 

Gíslatökumaðurinn er frá Íran, Man Haron Monis, en hann fékk hæli sem pólitískur flóttamaður í Ástralíu 1996. Blaðið The Australian sagði að hann væri íslamisti og hefði verið ákærður fyrir aðild að morði á fyrrverandi eiginkonu sinni en látinn laus gegn tryggingu. Talið er að hann hafi glímt við andleg veikindi.

Fjölmargir hafa lagt blóm á torgið skammt frá kaffihúsinu þar sem Monis hélt fólkinu í gíslingu og hafa fjölmargir minnst þeirra sem létust, þar á meðal leiðtogar helstu múslímasamtaka álfunnar. 

„Þeir voru bara á leið í vinnu líkt og flestir aðrir, komu bara við til þess að fá sér kaffibolla. Þetta hefði getað verið hver sem er,“ segir, Angelica Haifa, í samtali við AFP en hún er ein þeirra fjölmörgu sem lögðu blóm á torgið í morgun.

Gíslarnir sem létust hétu Tori Johnson, en hann stýrði kaffihúsinu. Hann var 34 ára að aldri. Hitt fórnarlambið er 38 ára gömul þriggja barna móðir, Katrina Dawson. Alls tók Monis 17 mannsí gíslingu. Sex slösuðust, þar á meðal þrjár konur sem urðu fyrir byssuskotum. Ein þeirra er 75 ára gömul. Tvær þungaðar konur voru fluttar á sjúkrahús í öryggisskyni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert