Þjóðarsorg í Pakistan

Íbúar í borginni Peshawar í Pakistan hófu í kvöld að jarðsetja þá sem létust í árás talibana fyrr í dag. Fjölmenni safnaðist saman í kringum líkkistur til að syrja hina látnu. Forsætisráðherra Pakistans hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg.

Liðsmenn talibana gerðu árás á skóla og myrtu 132 börn og níu starfsmenn. Margir særðust í árásinni og enn bíða margar fjölskyldu rá milli vonar og ótta. 

Pakistanskar hersveitir gerðu í dag árás á hóp uppreisnarmanna í héraðinu, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa fordæmt árásina, sem er sú mannskæðasta í landinu sem talibanar hafa staðið á bak við. Hún þykir það skelfileg að bandamenn talibana í Afganistan hafa neitað að leggja blessun sína yfir. 

Talsmaður hersina segir að sjö talibana hafi staðið á bak við árásina í dag, en allir voru í sprengjuvestum. 

Þeir komust inn um bakdýr skólans, sem herinn rekur, eftir að hafa klippt vírgirðingu. Þeir gengu inn í stóran sal þar sem börn voru að þreyta próf, en þar létu þeir til skarar skríða. Byssumenn gengu frá einni skólastofu í aðra og skutu alla sem þeir sáu.

Umsátrið við skólann stóð í átta klukkustundir og alls særðust 125 að sögn hersins. Árásarmennirnir létust allir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert