Varað við Facebook-veiru

Facebook á tölvuskjá.
Facebook á tölvuskjá. Ernir Eyjólfsson

Íslenskir netnotendur hafa orðið varir við nýja veiru sem dreift er í gegnum Facebook. Notandinn fær skilaboð frá Facebook-vini sem hefur orðið fyrir barðinu á veirunni og honum vísað á hlekk, til dæmis í formi myndbands af Youtube. Varað er við að opna slíka hlekki.

Sagt er frá veirunni á vefsíðu dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2. Þar er haft eftir bandarísku netöryggisfyrirtæki að áður en yfir lýkur gæti veiran hafa náð til um 600.000 Facebook-reikninga fólks.

Veirunni er lýst þannig að Facebook-notandinn fái persónulega skilaboð frá vini eða þá skilaboð á vegg viðkomandi. Með fylgir hlekkur á mynd eða myndband, jafnvel stundum með orðum eins og  „Hæ, ég var að fótósjoppa mynd af þér“. Skilaboðin koma hins vegar ekki frá vininum heldur frá veirunni sem hefur sent skilaboðin frá reikningi hans til vina hans á samfélagsmiðlinum.

TV2 hefur eftir netöryggissérfræðingnum Peter Kruse að þetta sé í fyrsta skipti sem netveira dreifir sér svo hratt. Veiran búa til hlekki á Dropbox-skjöl sem ganga mun skjótar fyrir sig en fólk nær að loka þeim.

Ekki er enn vitað hvað veiran gerir en þar sem mikið af persónulegum upplýsingum og skilaboðum um notendur eru á Facebook gæti öryggi þeirra gagna verið í hættu. Kruse ráðleggur fólki að slökkva á tölvunni ef það fær veiruna svo hún geti ekki dreift sér víðar. Hægt sé að forðast veiruna með því að opna ekki hlekkina sem hún sendir.

Frétt um Facebook-veiruna á vef TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert