Varð úti við fjölfarna lestarstöð

AFP

Heimilislaus Slóvaki fraus til bana á bekk fyrir utan Hütteldorf lestarstöðina í Vínarborg í gær á sama tíma og hundruð farþega gekk framhjá honum á leið til vinnu.

Einn þeirra sem áttu leið um lýsir því í samtali við dagblað í Austurríki að hann hafi séð manninn, sem var 51 árs að aldri, sitjandi á bekknum um átta leytið um morguninn. hann hafi verið þögull og drukkið vodka. Þetta kemur fram á fréttavefnum The Local.

Um eittleytið tóku ýmsir eftir því að maðurinn var rænulaus og höfðu samband við lögreglu. Í ljós kom að maðurinn var látinn og hafði verið látinn í nokkrar klukkustundir. Hann verður krufinn til þess að komast að því hvert banamein hans er en talið er nánast öruggt að hann hafi orðið úti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert