Pyntaður til að játa á sig morð

Aftaka - þessi mynd er úr safni
Aftaka - þessi mynd er úr safni AFP

Forseti Pakistans. Mamnoon Hussain, hafnaði því í gær að hætt yrði við fyrirhugaðar aftökur sautján fanga í landinu.

Fangarnir sautján voru allir dæmdir til dauða fyrir aðild að hryðjuverkum og verða þeir teknir af lífi á næstu dögum. Forsætisráðherra Pakistans, Nawaz Sharif, aflétti frestun dauðarefsinga þeirra sem dæmdir hafa verið fyrir aðild að hryðjuverkum í kjölfar fjöldamorða talibana fyrr í vikunni þegar yfir 130 börn voru myrt í skóla í Peshawar-héraði.

Á vef Reprive mannréttindasamtakanna er fjallað um mál eins þeirra dauðadæmdu sem væntanlega verða teknir af lífi á næstu dögum.

Þar kemur fram að Shafqat Hussain hafi verið handtekinn árið 2004 er hann var fimmtán ára gamall.  Hann játaði aðild að manndrápi eftir pyntingar. Hussain var ákærður fyrir mannrán og morð á barni og dæmdur á grundvelli játningar sem þvinguð var fram með pyntingum af hálfu lögreglu. Játningin kom eftir níu daga yfirheyrslur og pyntingar, að því er segir á vef bresku mannréttindasamtakanna.

Þegar málið kom til kasta hæstaréttar var dómnum breytt úr morði í manndráp af gáleysi en þrátt fyrir það verður hann væntanlega einn þeirra fyrstu sem tekinn verður af lífi í þessari viku í Pakistan.

Reprive 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert