Malasía bannar lögboðna dauðarefsingu

Myntin tengist fréttinni ekki beint.
Myntin tengist fréttinni ekki beint. AFP/Paul Buck

Malasíska þingið hefur samþykkt að afnema lögboðnar dauðrefsingar. Um 1.300 fangar eru nú á dauðadeild í ríkinu. 

BBC greinir frá því að öllum dauðarefsingum hafi verið frestað frá árinu 2018.

Afnámið sem þingið greiddi atkvæði um varðar lög sem kveða á um að glæpamenn skuli teknir af lífi ef þeir hafa framið einn af ellefu glæpum sem eru skilgreindir sem alvarlegir. Meðal glæpa sem flokkast sem alvarlegir eru morð og hryðjuverk. 

Samkvæmt þinginu á framvegis að dæma þá sem framið hafa alvarlega glæpi í lífstíðarfangelsi, sem er hámark 40 ár í Malasíu, eða veita þeim líkamlega refsingu. 

1.318 teknir af lífi frá 1992

Þingmaðurinn Ramkarpal Singh sagði í þinginu í dag að dauðarefsing væri óafturkræf og kæmi ekki í veg fyrir glæpi. 

„Dauðarefsing hefur ekki skilað þeim árangri sem hún átti að skila,“ sagði hann. 

Efri deild þingsins á enn eftir að greiða atkvæði um lagabreytinguna, en talið er að hún verði einnig samþykkt þar. 

Það eru 34 sakarefni sem eru þess eðlis að krefjast má dauðarefsingar fyrir í Malasíu. Ellefu þeirra höfðu sjálfkrafa í för með sér dauðarefsingu fyrir breytinguna í dag. 

Þeir 1.341 fangar Malasíu sem sitja nú á dauðadeild hafa 90 daga til að krefjast endurupptöku á málum sínum. 

Malasía er eitt af 53 ríkjum heims sem leyfa dauðarefsingu. Meðal annarra ríkja sem heimila refsinguna eru Kína og Singapúr. 

Samkvæmt opinberum gögnum hafa 1.318 fangar verið hengdir í Malasíu frá árinu 1992 til fram til ársins 2023. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert