Teknir af lífi fyrir að brenna Kóraninn

Ayatollah Ali Khamenei, æðstiklerkur Írans, veifar til almennings.
Ayatollah Ali Khamenei, æðstiklerkur Írans, veifar til almennings. AFP

Tveir karlmenn sem voru fundnir sekir um að brenna Kóraninn, helgirit múslima, og móðga Múhameð spámann voru teknir af lífi í Íran í morgun.

Þeir Sadrollah Fazeli Zare og Yussef Mehrdad voru hengdir.

Annar þeirra var sagður hafa fyrir tveimur árum viðurkennt fyrir dómstólum að hafa framið þessi afbrot, sagði á fréttasíðunni Mizan Online.

Mennirnir voru einnig sakaðir um að hafa hvatt fólk á samfélagsmiðlum til að trúa ekki á guð.

Írönsk yfirvöld taka fleiri af lífi á hverju ári en nokkur önnur þjóð, ef Kína er undanskilið, að sögn samtakanna Amnesty International.

75 fleiri voru hengdir í Íran í fyrra en árið á undan, að sögn tveggja annarra mannréttindasamtaka. Að minnsta kosti 582 voru teknir af lífi í Íran í fyrra, sem er það mesta síðan 2015, sögðu samtökin Iran Human Rights og Together Against the Death Penalty í sameiginlegri skýrslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert