Tölvuárásin ekki stríðsyfirlýsing

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að tölvuárás Norður-Kóreu á Sony Pictures hafi ekki verið stríðsyfirlýsing. Þetta sagði Obama í viðtali við CNN, sem birt verður síðar í dag. 

Stjórnvöld í N-Kóreu hafa hótað hefndaraðgerðum verði gripið til refsiaðgerða vegna tölvuárásarinnar, en norðurkóresk stjórnvöld neita því að hafa staðið á bak við árásina. Obama segir hins vegar að bandarísk stjórnvöld séu að íhuga að setja N-Kóreu á lista yfir ríki sem styðja hryðjuverk. 

Bandaríkin fjarlægðu N-Kóreu af listanum árið 2008 í kjölfar samningaviðræðna um kjarnorkuáætlun landsins.

Obama leggur á það áherslu, að ríkið verði ekki aftur sett á listann nema að vel athugðu máli þar sem farið verði yfir allar staðreyndir. 

Ennfremur lagði forsetinn á það mikla áherslu, að hann líti á árásina sem skemmdarverk en ekki stríð. 

„Nei, ég er ekki þeirrar skoðunar að þetta hafi verið stríðsyfirlýsing. Ég lít á þetta sem tölvu-skemmdarverk sem voru mjög kostnaðarsöm, afar dýr. Við lítum málið mjög alvarlegum augum,“ sagði Obama. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert