„Þetta eru slæm jól“

Úr myndbandinu.
Úr myndbandinu. AFP

Samuel Yaga, starfar sem bifvélavirki í norðaustur Nígeríu. Hann var að vinna að viðgerð þegar að síminn hans hringdi. Það símtal breytti lífi hans að eilífu.

Það var í apríl sem dóttur hans, ásamt 218 öðrum skólastúlkum var rænt af skæruliðum Boko Haram. Ættingjar stúlknanna bíða nú milli vonar og ótta um hvort þær komist einhverntíman heim. Skæruliðar samtakanna hafa sagt frá því að margar stúlknanna hafi verið seldar í kynlífsánauð eða jafnvel giftar. Halda þeir því einnig fram að þær séu nú orðnar múslímar. 

Þekkir grimmd þeirra of vel

„Það var bróðir minn sem sagði mér að ráðist hafi verið á skólann sem dóttir mín er nemandi við,“ segir Yaga í viðtali við CNN. Þegar að Yaga heyrði að stúlkum úr skólanum hafi verið rænt af Boko Haram óttaðist hann það versta. Hann þekkir of vel grimmd samtakanna en aðeins nokkrum mánuðum fyrr réðust meðlimir þeirra á þorp hans. 

Vopnaðir menn neyddu hann út úr húsi sínu og beindi einn þeirra byssu að höfðu Yaga. En af einhverjum ástæðum stöðvaði einn árásarmannanna það að Yaga yrði skotinn. 

Allt þorpið var jafnað við jörðu þannig að Yaga og fjölskylda hans flutti til Chibok og sendu elstu dóttur sína í skóla svo hún gæti klárað skólaárið. 

Yagu kaus að fara til Chibok ekki aðeins því það var heimili forfeðra hans og hann átti þar ættingja en einnig því Boko Haram hafði aldrei ráðist á þorpið. Yagu hélt hann væri öruggur, þar til núna. 

Seinna sama dag hringdi bróðir Yaga aftur. „Fyrir sólsetur hringdi hann aftur og sagði mér að dóttir mín væri meðal þeirra sem hafði verið rænt af Boko Haram.“

Neitaði að trúa fréttunum

Kona hans, Rebecca segir að fregnirnar af hvarfi dóttur þeirra hafi rifið hjarta hennar í sundur. Neitaði hún að trúa því þegar eiginmaður hennar sagði henni frá því, ekki fyrr en sagt var frá því í fréttunum um kvöldið. 

Rebecca segir að það líði ekki dagur án þess að hún hugsi til dóttur sinnar. Hún lýsir henni sem metnaðarfyllri stúlku sem sá menntun sem leið úr fátækt. 

„Hún hefur sagt mér að einn daginn mun hún klára skólann og verða einhver. Hún aðstoðaði yngri börnin með heimavinnuna,“ sagði hún. 

„Hún elskaði að læra. Hún sofnaði oft með bækurnar í höndunum,“ bætir móðirin við.

Faðir hennar segir að hún sé umhyggjusamt elsta barn sem þvoði skítug fötin hans og pressaði án þess að láta hann vita. „Hún er rosalega klár. Henni finnst gaman að lesa og elskaði alltaf að fara í skólann,“ segir hann. 

Jólin voru áður tími hláturs

Inni í litla heimili þeirra, sem er með aðeins eitt svefnherbergi, er ekkert sem gefur til kynna að jólin sé að næsta leyti. Hjónin segja að jólin hafi áður verið tími hláturs og fjölskyldustunda. 

„Á hverjum jólum vorum við saman og hamingjusöm, en núna er eitt okkar ekki hér, hvernig getur það verið eins?“ spyr Yaga. 

„Það er ekkert sem ég get sagt. Þetta er búið að gerast. Þetta eru slæm jól. En það er ekkert sem við getum gert,“ bætir Rebecca við. 

Sorg umlykur hjónin er þau halda í það eina sem þau eiga núna af dóttur sinni. Nokkrar myndir og einn grænan bol, einn af hennar uppáhalds. 

Þau eru þó vongóð á að dóttir þeirra komi aftur heim. Þurfa þau jafnframt að sannfæra hin börn sín, sem eru fimm talsins, um að halda í vonina. Þau segjast sakna systur sinnar. 

„Systkini hennar vita að hún er ekki hér. Þau vita hvað er að gerast, þau þekkja stríð,“ segir Yaga. „Þau spyrja mig stöðugt, „Hvenær kemur hún aftur?“ En ég segi þeim að treysta Guði. Kannski mun hann heyra í okkur.“

Viðtalið við hjónin á CNN má sjá hér.

Í maí sendi Boko Haram frá sér myndband sem sýndi …
Í maí sendi Boko Haram frá sér myndband sem sýndi stúlkurnar. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert