Byrjað að sýna The Interview

Margar stærstu keðjur kvikmyndahúsa í Bandaríkjunum hættu við að sýna …
Margar stærstu keðjur kvikmyndahúsa í Bandaríkjunum hættu við að sýna myndina eftir nafnlausar hótanir frá tölvuþrjótum. AFP

Bandaríska gamanmyndin The Interview hefur verið tekin til sýninga í kvikmyndahúsum vestanhafs og var frumsýnd í Los Angeles í dag, skömmu eftir miðnætti að staðartíma. Sýningar á myndinni hafa verið í lausu lofti eftir að framleiðslufyrirtækið Sony Pictures Entertainment tilkynnti nýverið að myndin yrði ekki gefin út sökum hótana um hryðjuverk frá tölvuþrjótum sem brutust inn í tölvukerfi fyrirtækisins.

„Við héldum að þetta myndi aldrei gerast,“ sagði Seth Rogen, aðalleikari myndarinnar, við gesti eins kvikmyndahússins.

Margar stærstu keðjur kvikmyndahúsa í Bandaríkjunum hættu við að sýna myndina eftir nafnlausar hótanir frá tölvuþrjótum, sem gerði það að verkum að Sony neyddist til að hætta við birtingu myndarinnar.

Bandarísk yfirvöld hafa kennt Norður-Kóreu um tölvuárásina og hryðjuverkahótanirnar í kjölfarið og hefur Barack Obama Bandaríkjaforseti heitið hörðum viðbrögðum.

 „Eftir að við ræddum málið í þaula, þá sammæltust Sony og Google um að við gætum ekki setið á hliðarlínunni og leyft nokkrum útvöldum að ákvarða takmörk tjáningarfrelsis í öðru landi, hversu ómerkilegt sem efni myndarinnar kann að vera,“ segir David Drummond aðallögfræðingur Google í yfirlýsingu.

Myndinni hefur einnig verið dreift á YouTube síðunni, sem er í eigu Google, og kostar áhorfið tæpa sex bandaríkjadali, eða tæpar 800 krónur, auk þess sem hægt er að nálgast myndina á sérstakri síðu.

„Frá upphafi hefur það verið ætlun okkar að sýna myndina um allt land. Það var því afar mikilvægt fyrir okkur að geta gefið þessa mynd út, sérstaklega vegna þeirrar árásar sem gerð var á fyrirtækið, af aðilum sem vilja hamla tjáningarfrelsinu,“ sagði stjórnarformaður Sony, Michael Lynton, í yfirlýsingu í gær.

Fréttir mbl.is:

The Interview til sölu á netinu

Sýna „The Interview“ á jóladag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert