Smábær varð umsátri að bráð

Íbúar franska smábæjarins Dammartin-en-Goële munu eflaust muna þennan dag lengi; þegar hermenn, sérsveitarmenn og lögreglumenn tóku völdin og lokuðu hreinlega bænum. Pattstaða er enn í bænum og óvíst með afdrif þeirra Chérif og Saïd Kouachi.

Kouachi bræðurnir óku inn í Dammartin-en-Goële á stolnum bíl í morgun þegar lögregla veitti þeim eftirför. Þeir komu sér fyrir inni í lítilli prentsmiðju í iðnaðarhverfi og hafast þar enn við með starfsmenn prentsmiðjunnar mögulega í haldi.

Í kjölfarið var gríðarlegur fjöldi sérsveitarmanna, hermanna og lögreglumanna fluttur til bæjarins, honum var fljótlega lokað og íbúum skipað að halda kyrru fyrir á heimilum sínum eða vinnustöðum. „Þetta gerðist allt svo fljótt. Allt í einu sveimuðu þyrlur yfir og við sáum stóra sérsveitarbíla allt um kring. Allir urðu mjög hræddir,“ segir Stephane sem býr í bænum við fréttaveituna AFP.

Önnur kona sem fréttaveitan ræddi við segir að dóttir sín starfi í fyrirtæki skammt frá prentsmiðjunni. „Hún vinnur á svæðinu þar sem hryðjuverkamennirnir halda sig. En sérsveitin passar upp á fyrirtækið og var þeim skipað að slökkva öll ljós og halda sig frá gluggum. Hún er mjög róleg yfir þessu en ég óttast um hana.“

Varabæjarstjóri Dammartin-en-Goële reyndi að hughreysta íbúa þessa átta þúsund manna sveitarfélags. Á vefsvæði bæjarins bað hann íbúa um að halda sig heima, búið væri að rýma alla skóla og þá sé mikill fjöldi viðbragðsaðila á svæðinu. Því eigi þetta allt eftir að fara vel.

Frá Dammartin-en-Goële í dag.
Frá Dammartin-en-Goële í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert