Faldi fólk í frysti verslunarinnar

Lassana Bathily hefur hlotið mikið lof fyrir viðbrögð sín.
Lassana Bathily hefur hlotið mikið lof fyrir viðbrögð sín.

Ungur múslimi hefur hlotið mikið lof fyrir að fela gyðinga í frysti stórmarkaðarins þar sem Amedy Coulibaly hóf skot­hríð í gær og tók fimm manns í gíslingu. Fimm létu lífið í árásinni, fjórir gíslar og Coulibaly sjálfur.

Lassana Bathily er starfsmaður í stórmarkaðnum, sem er í eigu gyðinga, en hann er upprunalega frá Malí í Vestur-Afríku. Hann er sagður hafa leitt skelfingu lostna viðskiptavini til öryggis í frysti markaðarins. Í viðtali við frönsku sjónvarpsstöðina BFMTV segir Bathily:

„Þegar þau hlupu að mér opnaði ég dyrnar að frystinum. Ég slökkti ljósið og ég slökkti á frystinum. Ég sagði þeim að fara inn í frystinn, svo lokaði ég dyrunum og sagði þeim að halda ró sinni.“

Eftir árásina á stórmarkaðinn hefur Bathily verið lofaður fyrir fumlaus viðbrögð sín. Coulibaly endaði á að taka fjóra gísla af lífi áður en lögreglan réðst til atlögu og réð hann af dögum þegar hann reyndi að flýja vettvanginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert