Sprengdu upp tíu ára stúlku

Liðsmenn Boko Haram hafa staðið á bak við fjölmargar árásir.
Liðsmenn Boko Haram hafa staðið á bak við fjölmargar árásir. AFP

Að minnsta kosti nítján létu lífið í dag þegar ung stúlka, sem talin er hafa verið tíu ára gömul, var sprengd upp í sjálfsvígsárás á fjölmennum markaði í borginni Maiduguri í norðausturhluta Nígeríu.

Sprengjan sprakk um hádegisbil þegar markaður dagsins stóð sem hæst og fjöldi sölumanna og viðskiptavina hafði safnast saman. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á voðaverkinu en færst hefur í aukana að hryðjuverkasamtökin Boko Haram noti konur og ungar stúlkur í sjálfsvígsárásir.

Ashiru Mustapha, sjálfskipaður lögreglumaður í borginni, sagði að sprengjan hefði sprungið þegar leitað var á stúlkunni við inngang markaðarins. „Stúlkan var um það bil tíu ára og ég efast um að hún hafi vitað hvað var fest við líkama hennar,“ segir Mustapha. Leitað var á henni þar sem málmleitartæki við innganginn gaf til kynna að hún væri með eitthvað innanklæða.

Abubakar Bakura varð vitni að atburðinum og sagði hann í samtali við fjölmiðla að líkami stúlkunnar hefði farið í tvennt við sprenginguna. Á meðal þeirra látnu voru tveir lögreglumenn sem leituðu á stúlkunni. Að sögn starfsmanns Rauða krossins hlutu margir lífshættulega áverka. Nítján létu lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert