49 lögreglumenn létust í 11 tíma bardaga

Lögreglumenn bera lík þeirra sem féllu í átökunum við MILF.
Lögreglumenn bera lík þeirra sem féllu í átökunum við MILF. EPA

49 filippseyskir lögreglumenn létust í átökum við uppreisnarhóp múslíma í suðurhluta landsins í dag. Ellefu tíma byssubardagi braust út eftir að lögregla fór inn í bæinn Mamasapano, en þar ráða skæruliðasamtökin MILF ríkjum. 

Fundist hafa lík 49 lögreglumanna að sögn talskonu lögreglunnar. Kom ekki fram hversu margir MILF-liðar létu lífið. Samkvæmt frétt AFP réðust skæruliðarnir á lögreglumennina þar sem þeir fóru inn í bæinn án þess að fá samþykki þeirra. Er það eitt af skilyrðunum í vopnahléssamningi við MILF sem samþykktur var í mars á síðasta ári.

„Þetta verður mikið vandamál,“ sagði sáttasemjari MILF, Mohagher Iqbal í samtali við AFP, aðspurður hvort átökin hefðu áhrif á vopnahléið. Hann og yfirvöld hafa þó staðfest að vopnahléið sé enn í gildi. 

Ríkislögreglustjóri Filippseyja, Leonardo Espina, fór ásamt innanríkisráðherra landsins til nágrannabæjarins Maguindanao í dag. Í yfirlýsingu frá Espina kom fram að lögreglumennirnir hefðu verið að elta „mikilvægt skotmark“ sem talið er bera ábyrgð á sprengjuárásum í suðurhluta landsins. 

Um 10 þúsund tilheyra MILF. Samþykktu þeir vopnahlé eftir fleiri áratugi í uppreisn við filippseysk stjórnvöld eftir að lagafrumvarp sem gæti veitt MILF sjálfstjórnarsvæði var rætt á þinginu. Það hefur þó ekki verið samþykkt. 

„Þetta eru fyrstu átökin á milli MILF og yfirvalda á þessu ári. Vonandi verða þetta þau seinustu,“ sagði Iqbal. „Við erum fylgjandi friði. Þegar kemur að MILF er vopnahléið enn í gildi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert