Ferðabanni aflétt í New York

Búið er að aflétta ferðabanni í New York og þá munu almenningssamgöngur hefjast að nýju í kjölfar kafaldsbyls sem gekk yfir svæðið í nótt, en víða mældist um 60 cm snjódýpt.

Bill de Blasio, borgarstjóri New York, sagði að borgin hefði sloppið með skrekkinn.

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, segir að ferðabann hafi verið í gildi í 13 sýslum. Því var aflétt klukkan 8 að staðartíma (kl. 13 að íslenskum tíma). Þá verði gefnar út tilkynningar um hvaða almenningssamgöngur verði komnar á skrið. 

„Snjóruðningstækin hafa verið á ferðinni, unnið hefur verið að söltun, en þetta er ekki eitthvað sem við tökum af léttúð. Við erum ekki að segja að þið ættuð ekki að fara út nema þið virkilega þurfið þess,“ sagði hann í samtali við CNN.

„Það munu verða umferðartafir. En við teljum að við getum aflétt ferðabanninu í samstarfi við nágrannaríki okkar. Og við munum koma almenningssamöngunum aftur í gang,“ sagði hann.

Chris Christie, ríkisstjóri New Jersey, hefur einnig tilkynnt að ferðabanni hafi verið aflétt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert