Tíunda hvert barn býr á átakasvæði

Safi, 9 ára drengur frá Sýrlandi, varð fyrir sprengjubroti og …
Safi, 9 ára drengur frá Sýrlandi, varð fyrir sprengjubroti og særðist þegar fjölskyldan flúði yfir landamærin til Tyrklands. Ljósmynd/UNICEF

Tíunda hvert barn í heiminum, eða um 230 milljónir, býr nú á átakasvæði, og aldrei fyrr hefur neyðarástand geisað á jafn mörgum svæðum í heiminum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, kynnti í morgun. Þörfin fyrir aukna neyðarhjálp er gríðarleg að því er fram kemur í tilkynningu frá UNICEF.

„Þörf fyrir viðamikla neyðarhjálp víðs vegar um heiminn hefur stigmagnast á undanförnum misserum. Milljónir barna búa við átök og ofbeldi, hungur, náttúruhamfarir og sjúkdóma,“ segir í tilkynningunni, en UNICEF kallar eftir 400 milljarða króna framlagi, stærsta neyðarákalli hingað til, svo koma megi börnum sem búa við slíkar aðstæður tafarlaust til hjálpar. 

Kalla eftir 400 milljarða króna framlagi

Um fjórðungur framlagsins sem óskað er eftir fer til Sýrlands og nágrannaríkjanna en yfir 1,7 milljónir barna búa í flóttamannabúðum í nágrannaríkjunum á meðan yfir 5,6 milljónir barna eru á vergangi innan Sýrlands.

Áhersla verður lögð á áframhaldandi aðgerðir í baráttu UNICEF gegn ebólufaraldrinum í Vestur-Afríku og hjálparstarf eflt enn frekar til að bregðast við mikilli neyð barna í Nígeríu þar sem átök og árásir vopnaðra hópa hafa aukist undanfarið ár og hrakið fleiri en 1 milljón manna á flótta. Mikil þörf er á stóraukinni neyðarhjálp fyrir börn í Úkraínu þar sem blóðug átök hafa staðið yfir í tæpt ár og stigmagnast á undanförnum vikum.

Þörfin aldrei verið brýnni

„Ótal börn í heiminum standa frammi fyrir hörmungum af annarri stærðargráðu en áður. Þau glíma við allt frá banvænum átökum til mannskæðra náttúruhamfara og heilsufarsógna sem stofna lífi þúsunda barna í hættu á degi hverjum, er haft eftir Afshan Khan, yfirmanni neyðaráætlana UNICEF í tilkynningunni. „Örlög barns skulu ekki ákvarðast af því hvar í heiminum það fæðist.“

„Óháð því hvort neyð barnanna nær fyrirsögnum fréttanna eða ekki, þá standa þau frammi fyrir hættum sem sprottnar eru frá félagslegri misskiptingu, stríðsátökum, loftlagsbreytingum og sjúkdómum sem stofna lífi þeirra í svo mikla hættu að við höfum aldrei orðið vitni að slíku áður. Þörfin hefur aldrei verið brýnni en nú.“

„Verðum að horfa til framtíðar“

Árið 2014 veitti UNICEF milljónum barna um allan heim neyðarhjálp. Þar á meðal voru 16 milljónir barna bólusett, um 2 milljónir barna fengu meðferð við vannæringu, 2 milljónir barna hlutu sálrænan stuðning og 13 milljónum barna var útvegaður aðgangur að hreinu vatni. Hernaðarátök, sjúkdómar, misskipting og náttúruhamfarir hafa hins vegar valdið því að neyð barna jókst á liðnu ári. Því er afar mikilvægt að efla aðgerðir enn frekar til að koma allra berskjölduðustu börnunum tafarlaust til hjálpar.

„Það fjármagn sem UNICEF kallar eftir nú er nauðsynlegt til að gera okkur kleift að veita börnum sem búa við neyð lífsnauðsynlega umönnun og hjálp. Við verðum öll að leggjast á eitt til að veita þeim tækifæri á að eiga friðsæla, bjarta framtíð. Lausnirnar geta ekki verið til skemmri tíma heldur verðum við að horfa til framtíðar, með hag þeirra barna sem nú eiga um sárt að binda, fyrir brjósti,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Örlög barns skulu ekki ákvarðast af því hvar í heiminum …
Örlög barns skulu ekki ákvarðast af því hvar í heiminum það fæðist, segir Afshan Khan yfirmaður neyðaráætlana UNICEF. Ljósmynd/UNICEF
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert