Var 7 sekúndum frá því að vinna milljarða

EPA

Kanadískur maður, sem fékk ekki greiddan út risastóran lottóvinning, hefur tapað fyrir fullt og allt málsókn við lottóið á þeirri forsendu að miðinn hafi verið gefinn út sjö sekúndum of seint.

Málaferlin hafa staðið yfir frá því árið 2008 en nú hefur Hæstiréttur Kanada fellt sinn dóm. Í raun var hann þó aðeins að hafna áfrýjun í málinu en neðra dómstig hafði komist að þeirri niðurstöðu að maðurinn hefði ekki unnið pottinn.

Lottópotturinn um örlagaríka dag var um 2,7 milljarðar íslenskra króna. 

Joel Ifergan er endurskoðandi. Hann fór út í búð rétt fyrir kl. 21 að kvöldi 23. maí árið 2008 til að kaupa miða í lottóinu. Afgreiðslumaðurinn í búðinni bað hann að flýta sér því að sölu miða væri hætt kl. 21. 

Klukkan á lottómiðavélinni var 20.59 er hún tók að prenta út miðana, en svo vildi til að hann var að kaupa tvo miða og sá seinni, með lukkutölunum, hafði ekki prentast út úr kassanum áður en klukkan sló 21. Það munaði þó aðeins sjö sekúndum. Sá miði gilti því aðeins í lottóútdrættinum viku síðar, samkvæmt niðurstöðu dómsins.

Eftir að Ifergan var neitað um útgreiðslu á helmingi vinningsins, sem féll að lokum allur í hlut eins manns, fór hann í mál við lottóið fyrir að hafa ekki getað látið prenta miðann út innan tímamarka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert