Stálu 50 kílóum af kókaíni frá lögreglunni

Sex manns hafa þegar verið ákærðir fyrir þjófnaðinn.
Sex manns hafa þegar verið ákærðir fyrir þjófnaðinn. AFP

Þrír franskir lögregluþjónar voru í dag leiddir fram fyrir dómara í París, vegna rannsóknar á kókaínstuldi þar sem rúmlega 50 kílógrömm af efninu hurfu frá höfuðstöðvum lögreglunnar í borginni.

Einn þrímenninganna starfar í fíkniefnadeild lögreglunnar og hinir tveir sinna almennum lögreglustörfum í 19. hverfi Parísar, samkvæmt heimildum fréttaveitu AFP.

Markaðsvirði efnisins þykir nema rúmlega tveimur milljónum evra, sem samsvarar rúmlega þrjúhundruð milljónum íslenskra króna. Var efnið tekið úr öryggisherbergi höfuðstöðva lögreglunnar, skammt frá Notre Dame dómkirkjunni.

Sex manns hafa þegar verið ákærðir vegna stuldsins. Sá þeirra sem mest liggur undir grun er fyrrum meðlimur fíkniefnadeildarinnar en að kvöldi verknaðarins sást hann yfirgefa lögreglustöðina með úttroðna poka. Voru kona hans og bróðir, sem einnig er lögreglumaður, einnig ákærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert