Kerry á leið til Úkraínu

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, er væntanlegur til Kænugarðs í dag þar sem hann tekur þátt í viðræðum um að veita her Úkraínu aðstoð. Í gær létust fjórir óbreyttir borgarar þegar árás var gerð á sjúkrahús í austurhluta landsins.

Heimsókn hans kemur í kjölfar alþjóðlegs þrýstings á um að reynt verði að stöðva blóðbaðið í landinu en átökin hafa færst í aukana undanfarna daga. Hundruð óbreyttra borgara hafa látist í Úkraínu undanfarnar vikur.

Petro Porosjénkó, forseti Úkraínu, segir að atburðir síðustu daga hljóti að hvetja Atlantshafsbandalagið til dáða og veita Úkraínumönnum frekari stuðning, þar á meðal vopn svo þeir geti varið sig sjálfir gegn árásarliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert