Áttu „uppbyggilegan“ fund

Angela Merkel, Vladimir Pútin og Francois Hollande ráða ráðum sínum …
Angela Merkel, Vladimir Pútin og Francois Hollande ráða ráðum sínum í Moskvu í dag. AFP

Leiðtogar Rússlands, Þýskalands og Frakklands komust að samkomulagi í kvöld um smíði áætlunar til að binda enda á átök í austurhluta Úkraínu. Talsmaður Vladimir Pútíns Rússlandsforseta sagði að áætlunin myndi fela í sér tillögur frá forseta Úkraínu, Petro Poroshenko.

Talsmaðurinn, Dmitry Peskov, sagði að fundur leiðtoganna í Moskvu, sem stóð í yfir fjóra tíma, hefði verið uppbyggilegur og að vinna væri þegar hafin við texta áætlunarinnar. Hún miðar að því að vopnahléssamkomulaginu frá því í september sl. verði framfylgt.

Franskur embættismaður sagði sömuleiðis að viðræður leiðtoganna hefðu verið uppbyggilegar. Gert er ráð fyrir að leiðtogarnir, sem ræddu ekki við fjölmiðla eftir fundinn, muni eiga símafund með Poroshenko á sunnudag.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, leitaðist við því fyrir fundinn að tempra vonir manna um skjótann endi á átökunum.

Gert er ráð fyrir að John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, muni funda í Munchen um helgina. Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, sagði í dag að Rússum yrði ekki leyft að teikna Evrópukortið upp á nýtt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert