„Þetta er sonur minn“

Jihadi John eða Mohammed Emwazi.
Jihadi John eða Mohammed Emwazi. EPA

Móðir Mohammeds Emwazis þekkti son sinn á fyrstu upptökunni sem hryðjuverkasamtökin Ríki íslams birtu en á henni sést Emwazi taka bandaríska blaðamanninn James Foley af lífi. Ghania Emwazi þekkti son sinn á rödd hans í myndbandinu.

Frá þessu greinir breska dagblaðið Telegraph á fréttavef sínum og vitnar til heimildarmanna í Kúveit, þaðan sem Emwazi-fjölskyldan er, en foreldrar böðulsins búa þar enn þann dag í dag.

Í frétt Telegraph segir að Jassem, faðir böðulsins, hafi verið kallaður til skýrslutöku hjá lögreglu í Kúveit eftir að sonur hans var nafngreindur í breskum fjölmiðlum. Í skýrslutökunni greindi hann frá því að þau Ghania kona hans hefðu vitað í marga mánuði hver þarna var að verki. Þannig hefði Ghania æpt upp yfir sig: „Þetta er sonur minn.“

Jassem og Ghania hafa ekki heyrt í syni sínum síðan 2013 og segjast í raun bara bíða eftir að heyra af andláti hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert