Þúsundir flýja heimili sín vegna goss

Gosið hófst um klukkan þrjú að staðartíma í nótt.
Gosið hófst um klukkan þrjú að staðartíma í nótt. AFP

3.000 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín eftir að eldfjall í Suður-Síle hóf að gjósa snemma í morgun. Eldfjallið heitir Villarrica og er eitt af virkustu eldfjöllum Síle. Það stendur í um 800 kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni, Santiago.

Í frétt AFP-fréttaveitunnar kemur fram að gosið hafi hafist um klukkan þrjú í nótt að staðartíma. Var fólk beðið að yfirgefa heimili sín fljótlega eftir það. 

Í sjónvarpsútsendingum síleskra sjónvarpsstöðva mátti sjá hraun renna frá eldfjallinu og öskustróka standa upp úr gígnum, en nokkrum klukkustundum síðar sáust engin ummerki um gos. Forseti landsins, Michelle Bachelet, kallaði þó eftir ró og hafa yfirvöld lokað vegum að svæðinu í kringum fjallið, en það er um 2.800 metra hátt. 

Villarrica er eitt af virkustu eldfjöllum Suður-Ameríku og laðar það til sín fjölmarga ferðamenn á ári hverju. Á sumrin er það vinsælt meðal fjallgöngufólks að klifra upp á toppinn til að sjá ofan í eldgíginn.

Fjallið gaus síðast árið 2000 en þar áður 1984. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert